Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Persónuverndarstefna vegna valkvæðrar sýnatöku við brottför frá Íslandi

Vinsamlega athugið að þessi persónuverndarstefna gildir einungis um vinnslu persónupplýsinga í tengslum við valkvæða sýnatöku vegna brottfarar frá Íslandi. Vinnsla persónupplýsinga vegna skyldubundinnar sýnatöku við komu til Íslands er á ábyrgð embættis Landslæknis og um hana er fjallað í persónuverndarstefnu sem nálgast má hér.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins („HH“) er ábyrgðaraðili að vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við valkvæða sýnatöku vegna brottfarar frá Íslandi.

Öll vinnsla persónuupplýsinga á vegum HH fer fram á grundvelli laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og þeim lögum sem gilda um starfsemi stofnunarinnar.

Til skýringar: (a) neikvætt sýni er niðurstaða um að COVID-19 sýking sé ekki til staðar; (b) jákvætt sýni er niðurstaða um að COVID-19 sýking sé til staðar.

Lýsing vinnslu persónupplýsinga við valkvæða sýnatöku vegna brottfarar frá Íslandi

Unnið er með persónupplýsingar sem skráðar eru þegar einstaklingur forskráir sig í vottorðasýnatöku og persónuupplýsingar sem verða til við úrvinnslu sýnis.

Sýnið verður tekið á sýnatökustað sem valinn hefur verið og sent til greiningar á Landspítala eða verktaka sem starfa á vegum Landspítala í þeim eina tilgangi. Sýnið er merkt með sýnatökunúmeri og verður  ópersónugreinanlegt rannsóknaraðilum.

Öllum neikvæðum sýnum verður eytt að lokinni rannsókn. Öllum persónuupplýsingum um neikvæðar niðurstöður verður eytt eftir 14 daga.

Sýni sem reynast jákvæð verða notuð til frekari greiningar og til að ákvarða meðferð.

Miðlun upplýsinga um niðurstöður og miðlun vottorða

Neikvæðar niðurstöður verða sendar með tölvupósti og smáskilaboðum í símanúmer sem skráð er í forskráningu. PCR vottorði verður sent með tölvupósti í netfang sem skráð er í forskráningu. Einstaklingar með íslenska kennitölu fá niðurstöður sendar í gegnum Heilsuveru á heilsuvera.is.

Ef niðurstöður veiruprófs eru jákvæðar mun heilbrigðisstarfsmaður Landspítala eða meðlimur smitrakningarteymis Almannavarna hafa samband um með því að hringja í símanúmer sem skráð er í forskráningu. Frekari vinnsla persónupplýsinga vegna jákvæðra sýna fer fram í samræmi við skyldur sóttvarnalæknis samkvæmt sóttvarnalögum og lögum um réttindi sjúklinga.

Persónuupplýsingar sem einstaklingar skrá í forskráningu eru geymd í gagnagrunni sem er einungis aðgengilegur takmörkuðum vinnuhópi á sýnatökustað.

Tölfræðileg úrvinnsla embættis Landlæknis fer fram með ópersónugreinanlegum upplýsingum.

Tilgangur vinnslu persónupplýsinga

Tilgangur vinnslu persónupplýsinga vegna valkvæðrar sýnatöku við brottför frá Íslandi er að veita einstaklingum þjónustu sem felst í að greina hvort viðkomandi er með COVID-19 sýkingu eða ekki og gefa út PCR vottorð ef niðurstaða er neikvæð.

Tilgangur vinnslu persónupplýsinga ef niðurstaða er jákvæð er jafnframt að vinna að frekari greiningu, veita meðferð og að miðla persónupplýsingum til smitrakningarteymis Almannavarna.

Heimild til vinnslu persónupplýsinga

Heimild til vinnslu persónupplýsinga í tengslum við valkvæða sýnatöku vegna brottfarar frá Íslandi er tvíþætt:

Vinnsla persónupplýsinga sem skráðar eru af einstaklingum við forskráningu svo og vinnsla persónupplýsinga við greiningu sýna þar sem niðurstöður eru neikvæðar er heimil þar sem hún er nauðsynleg til að efna samning milli HH og einstaklings um sýnatöku og útgáfu vottorðs um meðferð á sviði heilbrigðisþjónustu enda framkvæmd af starfsmanni slíkrar þjónustu sem bundinn er þagnarskyldu.

Vinnsla persónupplýsinga sem skráðar eru af einstaklingum við forskráningu svo og vinnsla persónupplýsinga við greiningu sýna þar sem niðurstöður eru jákvæðar er heimil og byggir á að hún sé nauðsynleg vegna lagaskyldu HH til að miðla neikvæðum upplýsingum til smitrakningarteymis Almannavarna.

Öryggi persónupplýsinga

Persónupplýsingar eru unnar með öruggum hætti.

Persónupplýsingar eru geymdar í dulkóðuðu formi og miðlun þeirra fer fram í gegnum dulkóðaðar og varðar samskiptaleiðir. Gagnagrunnar eru varðir með eldveggjum og öðrum viðeigandi öryggisráðstöfunum. Aðgangur og notkun gagnagrunnsins er einungis heimill starfsmönnum sem hafa sérstakar aðgangsheimildir og allar uppflettingar eru skráðar og rekjanlegar.

Réttindi þín vegna vinnslu persónupplýsinga

Fræðslu um réttindi þín vegna vinnslu persónupplýsinga má nálgast í almennri persónuverndarstefnu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Nálgast má almenna persónuverndarstefnu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hér.

Til baka í skráningarform